mánudagur, 16. mars 2009

Það var sagt mér...

...að það væri í lagi að sleppa því að taka börkinn af appelsínunum áður en maður setur þær í safapressuna. Ég hváði þegar ég heyrði þetta, mér fannst það skrítið. En ég var fullvissaður um að það væri safi í berkinum og með því að setja börkinn með í pressuna myndi ég drýgja safann verulega.

Við lögðum því af stað í góðri trú - Jóhann, Kjartan Ísak, Birna Lind, safapressan og nokkrar appelsínur. En niðurstaðan var vonbrigði. Fullt af safa sem smakkaðist eins og appelsínubörkur.

Við reyndum samt að bera okkur vel. Fengum okkur nokkra sopa og reyndum að gretta okkur ekki. Horfðum á hvort annað og kinkuðum kolli - jújú, þetta er alveg ágætt...svolítið skrítið...en ágætt. En húsmóðirin tók af allan vafa þegar henni var gefið smakk. "Oj, þetta er ógeðslegt." Um leið viðurkenndum við hin það sama.

Og appelsínubarkarsafinn fór sína leið í niðurfallið.

Þetta fer í reynslubankann.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli