þriðjudagur, 19. maí 2009

Júróblogg

Ég missti aðeins kúlið á laugardaginn. Ekki vegna þess að ég er Júró nörd. Ekki vegna þess að ég elska Jóhönnu Guðrúnu eða lagið hennar. Mér finnst bara skemmtilegra að vinna heldur en tapa.

Enívei.

Það er ein Júrókeppni sem er mér minnisstæð. Það var 2001. Þá var keppnin haldin í Danmörku, eftir frækinn sigur Olsen gengisins árið áður - good times...eitthvað. Nema hvað. Danir sendu þá þetta líka stórgóða lag til keppni flutt af sveitinni Rolli and King.



Sigurvegarar voru hins vegar eistneskt tvíeyki skipuð svörtum Tom Jones lokk-alike og asnalegum gaur.



....öhhh....þá er það komið á hreint...


þriðjudagur, 5. maí 2009

Fólkið á fjörtíuogtvö

Ég þekki nágranna mína ekki mikið. Jú öðru megin við okkur eru foreldrar Orra sem var með mér í grunnskóla. Þau eru mjög indæl og við heilsumst alltaf. Hinum megin við okkur er skólastjórinn í Álftanesskóla. Hann þekki ég lítið. Ská á móti mér er svo Helgi Muggari, konan hans og Birna dóttir hans. Þau þekki ég ágætlega - en ekki sem nágranna heldur sem FH-inga. Auðvitað er ég svo ágætlega málkunnugur fólkinu á efri hæðinni.

Svo er það fólkið í húsinu beint á móti - númer fjörtíuogtvö.

Ég þekki þau ekki neitt, en samt finnst mér þau algjörlega ómissandi og þau veita mér mikla gleði. Í raun hef ég sjaldan séð þau og aldrei talað við þau. En það sem gerir þau svo ómissandi er það sem ég heyri frá þeim. Á hverjum einasta degi opna þau eldhúsgluggann á meðan þau hlusta á Rás 1 með útvarpstækið svo hátt stillt að ómurinn af dagskrá gömlu góðu gufunnar berst yfir á bílaplanið mitt.

Það er fátt notalegra finnst mér en að stússast í bílskúrnum með óminn af útvarpstækinu þeirra í eyrum mínum. Stundum þegar ég er að koma heim staldra ég aðeins við og hlusta. Ég ímynda mér að karlinn sitji við eldhúsborðið (leggur kannski kapal) á meðan konan stússast eitthvað í bakgrunn (kannski að baka kleinur eða pönnsur).

Ómurinn úr útvarpstækinu lætur mér líða vel vegna þess að hann minnir mig á afa og ömmu. Og þegar ég hlusta á Rás 1 úr útvarpinu þeirra og stari á veggi hússins þeirra, án þess að sjá neitt, get ég ímyndað mér að amma og afi séu þarna inni í eldhúsi. Afi að leggja kapal og amma að baka kleinur. Einhversstaðar þarna get ég líka séð sjálfan mig, lítinn strák sem bíður spenntur eftir heitum kleinum frá ömmu sinni. Kannski ég biðji afa að segja mér sögur á meðan ég borða.


Það er gott að eiga góðar minningar.

sunnudagur, 3. maí 2009

Frétt vikunnar!

...er í boði dv.is. Þeir greindu einir frá því sem mestu skiptir um þessar mundur. Meðan aðrir fréttamiðlar gleymdu sér í ómerkilegum fréttum um ríkisstjórnarviðræður, svínaflensu og fleira í þeim dúr náði dv.is að aðskilja kjarnann frá hisminu.

"Bæjarstjóri grennist" er yfirskrift fréttarinnar og fjallar hún um að Jónmundur Guðmarsson bæjarstjóri Seltirninga sé farinn að stunda ræktina stíft og hafi um leið misst nokkur kíló. En þar með er ekki öllu sagan sögð því Jónmundur hefur einnig...

"...uppgötvað mátt ljósabekkjanna – stundar þá grimmt."

Toppurinn á ísjakanum, það besta af því besta, er svo geymt þar til í lokin.

"
Þessi lífsstílsbreyting bæjarstjórans á Seltjarnarnesi hefur skilað sér svo um munar. Jónmundur svífur um bæinn á ljósbleiku skýi, fegrar umhverfið með því einu að vera á staðnum og þykir líflegri en nokkru sinni fyrr."



Já, það má með sanni segja að DV þori þegar aðrir þegja.