miðvikudagur, 29. apríl 2009

tralala...

Jæja...húsmóðirin á Hringbraut hér. Allt að gerast.....daman var blessuð um síðustu helgi og hlaut nafnið Jóhanna Lára Skagfjörð. Ekki í höfuðið á hæstvirtum forsætisráðherra....þegar ég er farin að nefna börnin mín eftir Samfylkingarforingjum má tékka vel á mér. Nei, móðir Jóa heitir Jóhanna og er mun merkari kona en nafna hennar á þingi. Laugardagurinn var semsagt dagurinn hennar Jóhönnu á okkar heimili....þessarar sætari. Og hún var svona líka ánægð með nafnið sitt að hún byrjaði að brosa fyrir alvöru og brosir núna við hvert tækifæri.
Að nafnagjöf lokinni fórum við foreldrarnir að kjósa. Ég setti mitt x við B....ekki af jafn mikilli sannfæringu og áður, en þangað fór það nú samt. Ég bögglaðist heilmikið við sjálfa mig fyrir þessar kosningar....og á endanum var ákvörðunin að stórum hluta tilfinningaleg. Ég viðurkenni það alveg. Einhvern veginn fæ ég mig bara ekki til að kjósa annan flokk. Fyndist það eitthvað í átt við framhjáhald. Svo ekki taka nafnagjöfinni sem stuðningsyfirlýsingu við Samfylkinguna á nokkurn hátt.
Annars er fæðingarorlofið ósköp ljúft. Við JL fögnuðum gríðarlega á mánudaginn og sprönguðum kátar og glaðar um Fjörðinn í sólinni. Við erum ekki jafn hressar núna með rokið og rigninguna, en reynum samt að brosa og knúsast bara inni í staðinn. Ég ætla að skella mér smá út með litlu systur á morgun, rifja aðeins upp hvernig þessi heimur utan veggja Hringbrautarinnar lítur út....nú er svo komið að ég verð að vanda mig til að byrja ekki setningar á "sko, í Ophru í morgun.....". Ég ber mikla virðingu fyrir heimavinnandi konum sem ná að halda kúlinu svona til lengdar.
Meira seinna....Neighbours kalla;)
Bryndís


sunnudagur, 26. apríl 2009

Til hamingju þið...

...sem kusuð Samfylkinguna. Þið hafið tekið SKÝRA afstöðu.

Þessi frammistaða Össurar er líklega ein sú vandræðalegasta sem ég hef orðið vitni að!


þriðjudagur, 21. apríl 2009

Ég horfði á Liverpool - Arsenal heima hjá mér í kvöld. Fáránlegur leikur.

Mér fannst frammistaða Arsenal ekki upp á marga fiska og á köflum vantaði mig orð til að lýsa hversu lélegir þeir voru.

Gæjinn sem sá um textalýsinguna á soccernet.com lenti hins vegar ekki í sömu vandræðum og hitti naglann á hoveded þegar hann hafði þetta að segja á ´79 mín. :

"Arsenal are defending like they've been Rohypnolled."


Kv.
Jóhann S. M.

mánudagur, 20. apríl 2009

Svar við föstudagsgetrauninni!

Ég vil byrja á að segja að ég er hristur og hrærður yfir þeim gríðarlegu viðbrögðum sem föstudagsgátan fékk. Þetta er bara of mikið!!!

Heill enginn svaraði!

Áður en lengra er haldið er rétt að rifja upp gátuna miklu:

KÚREKI KOM RÍÐANDI INN Í HLÖÐU Á FÖSTUDEGI. HANN GISTI ÞAR Í TVÆR NÆTUR OG KOM ÚT Á MÁNUDEGI. HVERNIG MÁ ÞAÐ VERA?

Svarið er jafn augljóst og hvíti liturinn á hvítum hrísgrjónum; hestur kúrekans hét Föstudagur. Hann reið sumsé inn í hlöðuna á hestinum Föstudegi.

Verðlaun þessarar viku var bröns á Hringbrautrinni og þau hlýtur Enginn. Til hamingju!!!

kv.
djó ðe spó

laugardagur, 18. apríl 2009

----

Svona á fjölskylduföðurinn að kjósa samkvæmt konsingakompás mbl.is

Framsóknarflokkur (B)83%
Samfylkingin (S)78%
Frjálslyndi flokkurinn (F)77%
Vinstrihreyfingin - grænt framboð (V)76%
Borgarahreyfingin (O)74%
Lýðræðishreyfingin (P)72%
Sjálfstæðisflokkur (D)65%

föstudagur, 17. apríl 2009

FÖSTUDAGSGÁTA - af því gátur eru svo fjölskylduföstudagslegar

KÚREKI KOM RÍÐANDI INN Í HLÖÐU Á FÖSTUDEGI. HANN GISTI ÞAR Í TVÆR NÆTUR OG KOM ÚT Á MÁNUDEGI. HVERNIG MÁ ÞAÐ VERA?

Kv.
Jói


ps. hann var ekki vakandi í eina nótt

laugardagur, 11. apríl 2009

Páskarnir á Hringbraut...so far

Skírdagur var undirlagður undir eggjablástur og málun. Blásturinn kom í minn hlut og mér er ennþá illt í kinnunum. Það er merkilega erfitt að blása úr. Krakkarnir máluðu svo eggin og gerðu hreiður fyrir þau og voru, eins og sjá má, gríðarlega sátt með árangurinn.






Á Föstudaginn langa var svo heljarinnar matarboð hjá okkur. Foreldrar okkar beggja og Tinna mættu og boðið var upp á lambalæri, grillað lamba fillet, grillaðar kjúklingabringur og tilheyrandi gums með. Allir voru mega uppteknir við að borða þannig enginn tók myndir.

Í dag fékk Kjartan Ísak svo nýtt hjól (í fyrirfram ammógjöf). Gírahjól með handbremsu. Menn sem eru að verða átta ára hjóla ekki um á hjóli með fótbremsul Leimó pleimó.


Bryndís fékk líka hjól. Alvöru frúarhjól. Öfugt við Kjartan Ísak vildi Bryndís enga gíra, fótbremsu og körfu. Þær óskir voru uppfylltar.
Í lýsingu söluaðila á hjólinu stóð orðið "virðulegt" en því miður verður það orð ekki notað um fyrstu ferð Bryndísar á því. Hún hafði víst ekki hjólað í mörg herrans ár (en það er engin afsökun vegna þess að það er ástæða fyrir orðtakinu "it's like riding a bicycle...").


Birna Lind var auðvitað ekki útundan og fékk að pimpa hjólið sitt aðeins upp með forláta körfu skreytta blómum og hjóla-Dóru-brúsa. Hún varð svo ánægð að efri vörin á henni hvarf!


Síðan hélt öll Hringbrautarhersinginn af stað, þau þrjú á hjólunum sínum og ég með litlu í vagni. Við keyptum okkur ostaslaufur og kókómjólk í Vort daglegt brauð, borðuðum á Thorsplani, hjóluðum meðfram sjónum, stoppuðum hjá Gulla og Ellu og komum svo heim.

Allir dauðþreyttir og það verður farið snemma að sofa í kvöld.

kv.
jóiskag

föstudagur, 3. apríl 2009

Föstudagshugleiðing

Hvernig má það vera að kókómjólk í litlum fernum er geðveikt góð, en kókómjólk í eins lítra fernum er ógó?

miðvikudagur, 1. apríl 2009

Skilaboð frá leikskólanemanum!

Ég er veik og mér var illt í hálsinum. En einu sinni þá var mér svo illt, ekki í gær heldur hinn, á föstudegi, var ég alveg hræðilega veik. Ég svaf næstum því allan daginn. Og næsta dag var ég aðeins betri og síðan var ég aftur veik, en það var í gær. Og þá var mér ekki eins illt í hálsinum, þá var mér illt í hausnum. Og þá lá ég í sófanum þó að Jói kom úr skólanum. En í dag er ég aðeins betri en mér var kalt.




Birna Lind heiti ég.