þriðjudagur, 19. maí 2009

Júróblogg

Ég missti aðeins kúlið á laugardaginn. Ekki vegna þess að ég er Júró nörd. Ekki vegna þess að ég elska Jóhönnu Guðrúnu eða lagið hennar. Mér finnst bara skemmtilegra að vinna heldur en tapa.

Enívei.

Það er ein Júrókeppni sem er mér minnisstæð. Það var 2001. Þá var keppnin haldin í Danmörku, eftir frækinn sigur Olsen gengisins árið áður - good times...eitthvað. Nema hvað. Danir sendu þá þetta líka stórgóða lag til keppni flutt af sveitinni Rolli and King.



Sigurvegarar voru hins vegar eistneskt tvíeyki skipuð svörtum Tom Jones lokk-alike og asnalegum gaur.



....öhhh....þá er það komið á hreint...


þriðjudagur, 5. maí 2009

Fólkið á fjörtíuogtvö

Ég þekki nágranna mína ekki mikið. Jú öðru megin við okkur eru foreldrar Orra sem var með mér í grunnskóla. Þau eru mjög indæl og við heilsumst alltaf. Hinum megin við okkur er skólastjórinn í Álftanesskóla. Hann þekki ég lítið. Ská á móti mér er svo Helgi Muggari, konan hans og Birna dóttir hans. Þau þekki ég ágætlega - en ekki sem nágranna heldur sem FH-inga. Auðvitað er ég svo ágætlega málkunnugur fólkinu á efri hæðinni.

Svo er það fólkið í húsinu beint á móti - númer fjörtíuogtvö.

Ég þekki þau ekki neitt, en samt finnst mér þau algjörlega ómissandi og þau veita mér mikla gleði. Í raun hef ég sjaldan séð þau og aldrei talað við þau. En það sem gerir þau svo ómissandi er það sem ég heyri frá þeim. Á hverjum einasta degi opna þau eldhúsgluggann á meðan þau hlusta á Rás 1 með útvarpstækið svo hátt stillt að ómurinn af dagskrá gömlu góðu gufunnar berst yfir á bílaplanið mitt.

Það er fátt notalegra finnst mér en að stússast í bílskúrnum með óminn af útvarpstækinu þeirra í eyrum mínum. Stundum þegar ég er að koma heim staldra ég aðeins við og hlusta. Ég ímynda mér að karlinn sitji við eldhúsborðið (leggur kannski kapal) á meðan konan stússast eitthvað í bakgrunn (kannski að baka kleinur eða pönnsur).

Ómurinn úr útvarpstækinu lætur mér líða vel vegna þess að hann minnir mig á afa og ömmu. Og þegar ég hlusta á Rás 1 úr útvarpinu þeirra og stari á veggi hússins þeirra, án þess að sjá neitt, get ég ímyndað mér að amma og afi séu þarna inni í eldhúsi. Afi að leggja kapal og amma að baka kleinur. Einhversstaðar þarna get ég líka séð sjálfan mig, lítinn strák sem bíður spenntur eftir heitum kleinum frá ömmu sinni. Kannski ég biðji afa að segja mér sögur á meðan ég borða.


Það er gott að eiga góðar minningar.

sunnudagur, 3. maí 2009

Frétt vikunnar!

...er í boði dv.is. Þeir greindu einir frá því sem mestu skiptir um þessar mundur. Meðan aðrir fréttamiðlar gleymdu sér í ómerkilegum fréttum um ríkisstjórnarviðræður, svínaflensu og fleira í þeim dúr náði dv.is að aðskilja kjarnann frá hisminu.

"Bæjarstjóri grennist" er yfirskrift fréttarinnar og fjallar hún um að Jónmundur Guðmarsson bæjarstjóri Seltirninga sé farinn að stunda ræktina stíft og hafi um leið misst nokkur kíló. En þar með er ekki öllu sagan sögð því Jónmundur hefur einnig...

"...uppgötvað mátt ljósabekkjanna – stundar þá grimmt."

Toppurinn á ísjakanum, það besta af því besta, er svo geymt þar til í lokin.

"
Þessi lífsstílsbreyting bæjarstjórans á Seltjarnarnesi hefur skilað sér svo um munar. Jónmundur svífur um bæinn á ljósbleiku skýi, fegrar umhverfið með því einu að vera á staðnum og þykir líflegri en nokkru sinni fyrr."



Já, það má með sanni segja að DV þori þegar aðrir þegja.

miðvikudagur, 29. apríl 2009

tralala...

Jæja...húsmóðirin á Hringbraut hér. Allt að gerast.....daman var blessuð um síðustu helgi og hlaut nafnið Jóhanna Lára Skagfjörð. Ekki í höfuðið á hæstvirtum forsætisráðherra....þegar ég er farin að nefna börnin mín eftir Samfylkingarforingjum má tékka vel á mér. Nei, móðir Jóa heitir Jóhanna og er mun merkari kona en nafna hennar á þingi. Laugardagurinn var semsagt dagurinn hennar Jóhönnu á okkar heimili....þessarar sætari. Og hún var svona líka ánægð með nafnið sitt að hún byrjaði að brosa fyrir alvöru og brosir núna við hvert tækifæri.
Að nafnagjöf lokinni fórum við foreldrarnir að kjósa. Ég setti mitt x við B....ekki af jafn mikilli sannfæringu og áður, en þangað fór það nú samt. Ég bögglaðist heilmikið við sjálfa mig fyrir þessar kosningar....og á endanum var ákvörðunin að stórum hluta tilfinningaleg. Ég viðurkenni það alveg. Einhvern veginn fæ ég mig bara ekki til að kjósa annan flokk. Fyndist það eitthvað í átt við framhjáhald. Svo ekki taka nafnagjöfinni sem stuðningsyfirlýsingu við Samfylkinguna á nokkurn hátt.
Annars er fæðingarorlofið ósköp ljúft. Við JL fögnuðum gríðarlega á mánudaginn og sprönguðum kátar og glaðar um Fjörðinn í sólinni. Við erum ekki jafn hressar núna með rokið og rigninguna, en reynum samt að brosa og knúsast bara inni í staðinn. Ég ætla að skella mér smá út með litlu systur á morgun, rifja aðeins upp hvernig þessi heimur utan veggja Hringbrautarinnar lítur út....nú er svo komið að ég verð að vanda mig til að byrja ekki setningar á "sko, í Ophru í morgun.....". Ég ber mikla virðingu fyrir heimavinnandi konum sem ná að halda kúlinu svona til lengdar.
Meira seinna....Neighbours kalla;)
Bryndís


sunnudagur, 26. apríl 2009

Til hamingju þið...

...sem kusuð Samfylkinguna. Þið hafið tekið SKÝRA afstöðu.

Þessi frammistaða Össurar er líklega ein sú vandræðalegasta sem ég hef orðið vitni að!


þriðjudagur, 21. apríl 2009

Ég horfði á Liverpool - Arsenal heima hjá mér í kvöld. Fáránlegur leikur.

Mér fannst frammistaða Arsenal ekki upp á marga fiska og á köflum vantaði mig orð til að lýsa hversu lélegir þeir voru.

Gæjinn sem sá um textalýsinguna á soccernet.com lenti hins vegar ekki í sömu vandræðum og hitti naglann á hoveded þegar hann hafði þetta að segja á ´79 mín. :

"Arsenal are defending like they've been Rohypnolled."


Kv.
Jóhann S. M.

mánudagur, 20. apríl 2009

Svar við föstudagsgetrauninni!

Ég vil byrja á að segja að ég er hristur og hrærður yfir þeim gríðarlegu viðbrögðum sem föstudagsgátan fékk. Þetta er bara of mikið!!!

Heill enginn svaraði!

Áður en lengra er haldið er rétt að rifja upp gátuna miklu:

KÚREKI KOM RÍÐANDI INN Í HLÖÐU Á FÖSTUDEGI. HANN GISTI ÞAR Í TVÆR NÆTUR OG KOM ÚT Á MÁNUDEGI. HVERNIG MÁ ÞAÐ VERA?

Svarið er jafn augljóst og hvíti liturinn á hvítum hrísgrjónum; hestur kúrekans hét Föstudagur. Hann reið sumsé inn í hlöðuna á hestinum Föstudegi.

Verðlaun þessarar viku var bröns á Hringbrautrinni og þau hlýtur Enginn. Til hamingju!!!

kv.
djó ðe spó

laugardagur, 18. apríl 2009

----

Svona á fjölskylduföðurinn að kjósa samkvæmt konsingakompás mbl.is

Framsóknarflokkur (B)83%
Samfylkingin (S)78%
Frjálslyndi flokkurinn (F)77%
Vinstrihreyfingin - grænt framboð (V)76%
Borgarahreyfingin (O)74%
Lýðræðishreyfingin (P)72%
Sjálfstæðisflokkur (D)65%

föstudagur, 17. apríl 2009

FÖSTUDAGSGÁTA - af því gátur eru svo fjölskylduföstudagslegar

KÚREKI KOM RÍÐANDI INN Í HLÖÐU Á FÖSTUDEGI. HANN GISTI ÞAR Í TVÆR NÆTUR OG KOM ÚT Á MÁNUDEGI. HVERNIG MÁ ÞAÐ VERA?

Kv.
Jói


ps. hann var ekki vakandi í eina nótt

laugardagur, 11. apríl 2009

Páskarnir á Hringbraut...so far

Skírdagur var undirlagður undir eggjablástur og málun. Blásturinn kom í minn hlut og mér er ennþá illt í kinnunum. Það er merkilega erfitt að blása úr. Krakkarnir máluðu svo eggin og gerðu hreiður fyrir þau og voru, eins og sjá má, gríðarlega sátt með árangurinn.






Á Föstudaginn langa var svo heljarinnar matarboð hjá okkur. Foreldrar okkar beggja og Tinna mættu og boðið var upp á lambalæri, grillað lamba fillet, grillaðar kjúklingabringur og tilheyrandi gums með. Allir voru mega uppteknir við að borða þannig enginn tók myndir.

Í dag fékk Kjartan Ísak svo nýtt hjól (í fyrirfram ammógjöf). Gírahjól með handbremsu. Menn sem eru að verða átta ára hjóla ekki um á hjóli með fótbremsul Leimó pleimó.


Bryndís fékk líka hjól. Alvöru frúarhjól. Öfugt við Kjartan Ísak vildi Bryndís enga gíra, fótbremsu og körfu. Þær óskir voru uppfylltar.
Í lýsingu söluaðila á hjólinu stóð orðið "virðulegt" en því miður verður það orð ekki notað um fyrstu ferð Bryndísar á því. Hún hafði víst ekki hjólað í mörg herrans ár (en það er engin afsökun vegna þess að það er ástæða fyrir orðtakinu "it's like riding a bicycle...").


Birna Lind var auðvitað ekki útundan og fékk að pimpa hjólið sitt aðeins upp með forláta körfu skreytta blómum og hjóla-Dóru-brúsa. Hún varð svo ánægð að efri vörin á henni hvarf!


Síðan hélt öll Hringbrautarhersinginn af stað, þau þrjú á hjólunum sínum og ég með litlu í vagni. Við keyptum okkur ostaslaufur og kókómjólk í Vort daglegt brauð, borðuðum á Thorsplani, hjóluðum meðfram sjónum, stoppuðum hjá Gulla og Ellu og komum svo heim.

Allir dauðþreyttir og það verður farið snemma að sofa í kvöld.

kv.
jóiskag

föstudagur, 3. apríl 2009

Föstudagshugleiðing

Hvernig má það vera að kókómjólk í litlum fernum er geðveikt góð, en kókómjólk í eins lítra fernum er ógó?

miðvikudagur, 1. apríl 2009

Skilaboð frá leikskólanemanum!

Ég er veik og mér var illt í hálsinum. En einu sinni þá var mér svo illt, ekki í gær heldur hinn, á föstudegi, var ég alveg hræðilega veik. Ég svaf næstum því allan daginn. Og næsta dag var ég aðeins betri og síðan var ég aftur veik, en það var í gær. Og þá var mér ekki eins illt í hálsinum, þá var mér illt í hausnum. Og þá lá ég í sófanum þó að Jói kom úr skólanum. En í dag er ég aðeins betri en mér var kalt.




Birna Lind heiti ég.

mánudagur, 30. mars 2009

MÉR ER ALVEG SAMA!!!

MÉR ER ALVEG SAMA þó að Hafþór sé með tvo hesta á húsi í vetur!

MÉR ER ALVEG SAMA
þó að Guðrún hafi byrjað að vinna í bankanum fjórtán ára gömul!
(en spyr: Hvað er fjórtán ára gamalt barn að gera að vinna í banka?)


MÉR ER ALVEG SAMA
þó að Ólöf syndi á hverjum degi og taki svo pottinn á eftir!

MÉR ER ALVEG SAMA
þó að Pétrún hafi margoft farið á Snæfellsjökul á sleða og skíðum!


Já, MÉR ER ALVEG SAMA hvað fólkið í Landsbankanum gerir í sínum frítíma. Ég mun ekki koma í viðskipti við bankann vegna áhugamála starfsfólksins. Og væri ég viðskiptavinur get ég ekki séð að ég yrði ánægðari með okurvextina á yfirdrættinum mínum vegna þess að þjónustufulltrúinn minn er duglegur að synda.


Ég vil líka taka það fam að MÉR ER ALVEG SAMA hvað fólkið sem vinnur í Bónus og Bryndísarsjoppu gerir í sínum frítíma. Ég vil bara fá afgreiðslu. Það er það eina sem ég vil frá þessu fólki.


Kv.
jóiskag

föstudagur, 27. mars 2009

Topp fimm

- lélegt sjónvarpsefni

5. Survivor
Fólk í óbyggðum að rífast. Hugmyndin og útfærslan var temmilega fersk þegar maður sá þetta fyrst. En það var fyrir mööööörgum árum, sama ár og fólki fannst þessi viðbjóður frábært lag. En nú er árið 2009 og heilvita fólk horfir hvorki á Survivor né hlustar á Who Let the Dogs Out.

4. Stelpurnar
Ég man varla eftir fyndnu atriði úr Stelpunum. Ég held að öll góða gagnrýnin og verðlaunin sé ekki komin til vegna þess að fólki finnist þetta í alvöru fyndið...heldur meira af ótta við femínista.

3. Idol
Leit að hæfileikaríku fólki. Hugmyndin er ekki svo slæm. Það slæma er að það er ekkert hæfileikaríkt fólk (í fleirtölu) í keppninni. Það er einn mjög góður keppandi, þrír sem myndu enda í topp fimm í söngvakeppni Finnbogastaðaskóla á Ströndum og svo er hellingur af virkilega vonlausu liði sem fær hrós eða last fyrir fötin sín.

2. Suður-Amerísku sápurnar
La Fea Más Bella og Wings of Love kannast kannski ekki margir við. Allavega ekki fyrr en þeir fara í fæðingarorlof og hafa ekkert að gera nema horfa á sjónvarp. Einhver sagði mér að að þessar sápur væru notaðar sem pyntingartæki í Guantanamo fangabúðunum. Skýrt brot á Genfarsáttmálanum.

1. Auddi og Sveppi
Ég hélt að strákaflippið hefði runnið sitt skeið með...Strákunum. En nei...flippið heldur áfram...en er ekki lengur strákaflipp. Meira svona miðaldra gaurar að flippa eitthvað einu sinni í viku á milli þess sem hárið þynnist og maginn stækkar.


Kv.
jóiskag



Skilaboð frá Bryndísi: Þeir sem skoða þetta blogg EIGA að kommenta. Það þýðir þið!

miðvikudagur, 25. mars 2009

Veskjaþjófurinn

- eftir Kjartan Ísak Sæmundsson


"Ég þoli ekki veskjaþjófa" sagði Örn.
"Ekki ég heldur" sagði María. "Þeir eru geðvondir og leiðinlegir."
"Já ég segi það sama og mamma er alltaf að skamma okkur."
"En veistu Örn, við getum kannski látið mömmu hætta að skamma okkur."
"Já kannski."

"Já, en sjáðu þarna úti það er einhver að klína sér við rúðuna hjá okkur!"
"Já, ég sé það."
"Þessi maður er eitthvað fúll í framan. Óóóó kannski er þetta veskjaþjófur. Veskjaþjófar eru oftast 30 ára."
"Já það er satt. Hann er með svarta húfu á höfðinu."
"Já það er satt" sagði María.
"Hver skyldi þetta vera?"
"Ertu að meina hvað hann heitir?"
"Já ég meinti það."

"Hringjum í lögguna" sagði Örn.
"Nei við skulum ekki gera það, alls ekki gera það!"
"Af hverju ekki?"
"Af því að mamma leyfir okkur það örugglega ekki.
"Æj já, ég gleymdi því alveg."
"Hei við skulum stelast að hringja í lögguna."
"Já við skulum þá prufa það.
"Já, gemmér fæf."

"Hei manst þú númerið ég man það nefnilega ekki?"
"En ég man það nefnilega. Það er 112."
"Ókei geri það."

"Halló þetta er strákur sem heitir Örn" og þeir töluðu saman um þetta og svo kom löggan. Og þá tók hún eftir honum. En þjófurinn rotaði lögguna og henti henni í ruslið og þegar hún vaknaði dó hún úr fýlu.

Þau hringdu í aðra löggu sem væri ekki það léleg lögga eins og hin löggan og hún kom og tók hann en þegar þeir voru komnir í bílinn þá rotaði þjófurinn lögguna og það kom önnur lögga sem var líka rotuð og þannig var það alltaf nema einu sinni.

En þá fór bófinn í fangelsi. En þá sáu Örn og María tösku sem veskjaþjófurinn hafði stolið. Þau kíktu inn í töskuna og vitið þið hvað var ofaní? Milljón þúsund dollarar!!! Þau fóru með þetta á lögreglustöðina.

fimmtudagur, 19. mars 2009

Af hverju?

Tíminn líður hratt. Ég er búinn að vera í fríi í rúmar þrjár vikur og byrja aftur að vinna í næstu viku. Í kjölfarið velti ég fyrir mér tveimur spurningum:

1. Af hverju er ég ekki búinn að nýta tímann vel og liggja í Football Manager?
2. Nú þegar ég er búinn að fatta að ég hef alveg vanrækt Football Manager, af hverju er ég þá að blogga um það í staðinn fyrir að byrja að spila fríking leikinn.



jóiskag

miðvikudagur, 18. mars 2009

Hvernig er Jói að standa sig?

Þetta er spurning sem Bryndís hefur fengið reglulega síðan Skvísa Skagfjörð kom í heiminn.

Ég skil ekki alveg af hverju fólk spyr að þessu. Heldur fólk að ég sé almennt ófær um að sinna barni? Ég vil minna á að við Bryndís erum búin að búa hérna á Hringbraut í tvö ár með tvö stykki börn. Auk þess (með fullri virðingu fyrir Bryndísi) tel ég mig mun betur í stakk búinn til að eignast ungabarn núna (27 ára) heldur en Bryndís var 18 ára.

Það eru bara konur sem spyrja Bryndísi að þessu. Karlar, öfugt við konur, vita nefnilega að karlar geta séð um börn.

Jafnréttisbarátta kvenna snýst nefnilega um að konur geti gert allt sem karlar gera - en ekki séns að karlar geti gert allt sem konur gera.

Af hverju er ég aldrei spurður að því hvernig Bryndís sé að standa sig?



Hún stendur sig mjög vel, ef einhver var að pæla.


jóiskag

þriðjudagur, 17. mars 2009

Lífið í fæðó

Jæja....tími á að fleiri fjölskyldumeðlimir láti að sér kveða hér...þakka þó heittelskuðum sambloggara mínum frábæra samantekt á best-of gangsta rappi í Árbænum, gott stuff. Það efsta á baugi hér á Hringbrautinni þessa dagana er óneitanlega koma lítillar manneskju sem mætti á svæðið þann 23. febrúar.... sem gerir hana þriggja vikna og tveggja daga gamla í dag. Daman er bara frekar dásamleg og allir fjölskyldumeðlimir eru afar sáttir með hana. Jói er í feðraorlofi núna en klárar það væntanlega í næstu viku....þá kemur í ljós hvort við mæðgur spjörum okkur einar. Við fílum hvor aðra ágætlega svo við erum bjartsýnar. Jói er alveg að standa sig í djobbinu og er að kafna úr monti yfir þessari þriggja kílóa smækkuðu mynd af sjálfum sér. Systkinin eru líka frekar stolt....Birna Lind mætir í leikskólann á hverjum morgni með nýjar æsispennandi sögur um hvern systirin kúkaði á þann daginn og Kjartan Ísak sýnir öllum (misáhugasömu) vinunum hana. Þau eru sammála um að það sé pottþétt skemmtilegra að eiga hana en ekki....tilkynntu mér það um daginn.
Lífið er semsé ljúft hér á bæ....hlakka mjög svo til að geta farið að skreppa út í vagn með skvísu...veit samt ekki hvort að facebook spjarar sig án mín. Vona það.
Ætla að segja þetta gott í kvöld...kem fljótlega með eitthvað krassandi (kannski gerist eitthvað æsispennandi tengt brjóstagjöf og bleyjuskiptingum á morgun....stay tuned).....já og kommentið svo ef þið rambið hér inn!
BEÁ

The Legend of Busta Bitches

Fyrir nokkrum árum, þegar ég vann í félagsmiðstöðinni Verinu, kynntu nokkrir hressir unglingar mig fyrir því heitasta sem var að gerast á "gangsta-rap" heiminum á Íslandi. Um var að ræða sveitina Busta Bitches. Sveitin var skipuð tveimur (eða þremur) drengjum í kringum 11 ára aldurinn. Fjöldi þeirra var ekki alveg á hreinu eins og má sjá á síðunni rokk.is þar sem þeir drengir komu lögum sínum á framfæri við alheiminn.

"við erum 2 strákar úr árbænum og einu hljóðfærin sem við notum eru micar.. við erum reindar 3.."

Þeir voru þó með á hreinu að það væru aðeins tveir rapparar í bandinu, þeir "Danni suco a.k.a. Mr.Suco og DannY P..og shaggy-p a.k.a. fannar".

Þegar ég uppgvötvaði sveitina hafði hún þá þegar gefið út tvö lög, I'ma hustler og I know U like me.

Fyrra lagið er vafalaust harðasta bófarapp Íslandssögunnar. Þið getið hlustað á lagið með því að smella hér. Ég hvet ykkur eindregið til að hækka og hlusta vel á textann.
Í síðara laginu fengu þeir félagar aðstoð frá vinkonu sinni, sem mér skilst að heiti Rebekka. Lagið er öllu rólegra en I'm a hustler og fjallar um hugljúft samneyti einstaklinga af sitthvoru kyninu. Einstaklega fallegt.



Eins og Elvis, Bítlarnir og fleiri brautryðjendur í tónlistinni vakti sveitin mikið umtal í samfélaginu, og jafnvel reiði meðal sumra. Sumir vildu meina að þessir tveir (eða þrír) drengir væru upprennandi snillingar en aðrir vildu meina að þeir kæmu slæmu nafni á ímynd gangsta-rappsins.
Óvildarmenn bandsins voru nokkuð miskunnarlausir við vesalings litlu gangsterana úr Árbænum og skildu eftir óvægin skilaboð í gestabókinni á bloggsíðunni þeirra.

"ef þið eruð ekki hættir núna, endilega gerið það áður en einhver myrðir ykkur....sem væri annars fínt...............oog þið eruð ljótir"

"alvöru ekki gera annað lag eða einhver sslasast alvarlega"

"ætla að finna út hvar þú átt heima og lemja þig"

"þið eruð ömulegir og vangefnir og þig ættuð að hætta að vera þroskaheftir mongólítar. tónlistin ykkar er vangefin, þroskaheft og hommaleg. kveðja:busta-bitches killer PS.danni þú ert þroskaheft helvíti"


Það er kalt á toppnum var einhverntímann sagt og því fundu Busta Bitches strákarnir svo sannarlega fyrir. Fór svo að lokum að þeir þoldu ekki pressuna og umtalið, ekki frekar en Sex Pistols á sínum tíma, og hljómsveitin hætti störfum. Danni suco gekk síðar til liðs við hljómsveitina Heitar rímur og skipti fljótlega um nafn. Nafnaskiptin voru útskýrð skýrt og greinilega á síðu sveitarinnar:


"Danni breytti um nafn. Hann kallaði sig fyrst Danni Suco en núna heitir hann Danni G (G-ið merkir Guðmundsson vegna þess að Danni heitir Daníel Guðmundsson fullu nafni)."

Þrátt fyrir nokkra leit á Netinu tókst mér ekki að finna nein lög með Heitum rímum og er það miður.




Þrátt fyrir stuttan líftíma og í raun aðeins tvö útgefin lög skildi gangsta-rap sveitin Busta Bitches eftir sig djúp spor í tónlistarsögu Íslands. Drengirnir voru ekki aðeins stútfullir af hæfileikum heldur ruddu þeir brautina fyrir aðra tánings gangsta-rappara eins og t.d. MC Bigga og Killerinn, Bytturnar og krónprinsinn MC Gauta.


R.I.P.
Busta Bitches
- Dis Rap is da bomb! Beatch! -




jóiskag

mánudagur, 16. mars 2009

Það var sagt mér...

...að það væri í lagi að sleppa því að taka börkinn af appelsínunum áður en maður setur þær í safapressuna. Ég hváði þegar ég heyrði þetta, mér fannst það skrítið. En ég var fullvissaður um að það væri safi í berkinum og með því að setja börkinn með í pressuna myndi ég drýgja safann verulega.

Við lögðum því af stað í góðri trú - Jóhann, Kjartan Ísak, Birna Lind, safapressan og nokkrar appelsínur. En niðurstaðan var vonbrigði. Fullt af safa sem smakkaðist eins og appelsínubörkur.

Við reyndum samt að bera okkur vel. Fengum okkur nokkra sopa og reyndum að gretta okkur ekki. Horfðum á hvort annað og kinkuðum kolli - jújú, þetta er alveg ágætt...svolítið skrítið...en ágætt. En húsmóðirin tók af allan vafa þegar henni var gefið smakk. "Oj, þetta er ógeðslegt." Um leið viðurkenndum við hin það sama.

Og appelsínubarkarsafinn fór sína leið í niðurfallið.

Þetta fer í reynslubankann.

Yfirlýsing frá fimm manna fjölskyldunni á Hringbraut

Eftir prófkjör Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi lét Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, falla ummæli sem hann taldi útskýra ósigur sinn. Ummælin voru á þá leið að hann væri svo vinsæll hér í bæ að Hafnfirðingar hefðu tekið sig saman um að kjósa hann EKKI, til þess eins að lýsa yfir óánægju með að hann væri að yfirgefa bæjarstjórn.

Nákvæmlega hvaða Hafnfirðingar það voru sem vildu alls ekki missa Lúlla sinn útskýrir hann ekki, og liggja því allir bæjarbúar undir grun. Það þykir fimm manna fjölskyldunni á Hringbraut miður og finnur hún sig því knúna til að gefa frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

"Fimm manna fjölskyldan á Hringbraut lýsir sig alfarið saklausa af ásökunum Lúlla bæjó þess efnis að hafa EKKI kosið hann vegna þess að hann er svo skrambi frábær. Ásakanir þessar eru algjörlega úr lausu lofti gripnar og er það miður að jafn háttsettur maður í bænum skuli ráðast að okkur, sem og öðrum saklausum bæjarbúum, með jafn óvægnum og niðurlægjandi hætti. Það að segja að heilt sveitarfélag sé jafn ástfangið af Lúlla og hann vill meina er í okkar huga ein svívirðilegasta árás á Hafnarfjörð síðan kosið var um sameiningu við Voga á Vatnsleysuströnd hér um árið.

Fimm manna fjölskyldan vill að það komi skýrt fram að hún er enginn aðdáandi Lúlla og hefði glöð vilja sjá hann sigra þetta prófkjör og hverfa brott úr bæjarstjórn, helst með skuldahalann sinn með sér.

Þrátt fyrir að meintar vinsældir Lúlla bæjó hafi hindrað sigur hans í prófkjörinu á hann eigi að síður öruggt þingsæti í vændum og erum við þess fullviss að hann muni standa sig jafn illa sem þingmaður og hann hefur gert sem bæjarstjóri. Víst er að það eina sem mun standa í vegi fyrir honum og ráðherrastól er meintar vinsældir hans."

sunnudagur, 15. mars 2009

Velkomin!

Fimm manna fjölskyldan á Hringbraut býður ykkur velkomin á þessa ágætu síðu. Hér ætlum við að segja fréttir af fjölskyldulífinu, setja inn myndir og jafnvel rasa út um málefni líðandi stundar af og til.

Af okkur er það helst að frétta akkúrat núna að kennararnir eru gapandi hissa á góðu gengi Árna Johnsen í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, grunnskólaneminn er að gera ritunarverkefni um hvað hann ætli að verða þegar hann verður stór ( = kennari), leikskólaneminn er í kirkju með afa sínum og ömmu og nýburinn lyktar af súrri mjólk og verður baðaður í kvöld.

Já, og það er hakk í matinn.

Bless í bili;
Jóhann